Gott skref - en leiðin er lengri

Þetta er gott skref í jarðaeignahaldi. Í raun er það gamaldags fyrirbæri að fólk eigi land. Fyrirbærið kemur oft í veg fyrir eðlilega nýtingu lands.

Fólk á kannski land vegna þess að foreldrar eða afi og amma voru með hokurbúskap á landbleðli, búskap sem er löngu aflagður því að enginn afkomenda hafði áhuga á hokrinu. Þeir sem erfa sjálfkrafa, eignast börn og þau svo sín og þannig fjölgar "eigendum" hins íslenska lands. Ekkert þeirra hefur kannski nokkurn áhuga á hinum "íslenska" landskika sem þau óvart "eignuðust" því lítið er hugsanlega um nothæfan húsakost. Þannig liggur landið ósnert dýrum merkurinnar einum til gagns. Sem er ekki slæmt í sjálfu sér, - en svo kemur að því að hugsanlega þarf að betrumbæta þjóðveg mannskepnunni til gagns, leggja rafmagnsstreng, ljósleiðara, eða vatnslögn í jörðu fyrir byggðarlag í grenndinni. Eitthvað af þessu kallar á að farið sé inn á íslenskt land í erfingjaeigu, kannski bara lítil jarðýta til plægja niður ljósleiðara, en þá, aha, segir eitthvert langafa/ömmubarn þeirra sem hokruðu þar fyrir 50-100 árum, er ekki hægt að mjólka þetta eitthvað!

Þá getur verk tafist eða jafnvel stöðvast um nokkur ár, jafnvel áratugi eins og dæmi sanna. Eitt dæmið er um tuttugu ára og óútkljáð enn þar sem erfingjar standa í vegi fyrir samgöngubótum sem skerðir kjarrlendi, en sömu erfingjar höfðu áform um að byggja upp sumarbústaðabyggð í hinu sama kjarrlendi.

Erfingjar, sem getur verið stór og sundurleitur hópur getur komið í veg fyrir byggðaþróun, s.s. hokurbúskapur sem hefur lagst af fyrir hálfri öld hefur landamörk að kaupstað, kaupstaðurinn hefur vaxtarmöguleika vegna nægjanlega sterks atvinnulífs. En ó, þarna gengu langamma og langafi um með orf og ljá og sólin lék um rjóða vanga þeirra, og aldrei skal þar byggt eitthvert nýmóðins raðhús. Kannski er meirihluti erfingja á því að réttast sé að láta þúfnakargann, til þess að kaupstaðurinn nái að eflast og vaxa í takt við þjóðfélagið. En, það er víst ekki nóg, það dugir að einn sé á móti, hvort sem ræður, rómantík eða peningaþrá.

Hvað er þá til ráða? Eignarnám? Í smærri samfélögum getur slíkt verið viðkvæmt og skapað úlfúð. Beðið er með slíkt, oft í lengstu lög. Á sama tíma er þróun samfélagsins í bið. Hnignar jafnvel vegna þess að einhverjir hafa ekki trú á þróun samfélagsins eða nenna ekki að bíða bara og vona. Þannig getur óverðskuldað eignarhald á landi staðið í vegi fyrir eðlilegri byggðaþróun.

Að kaupa bíl, bát, hús eða einhver önnur mannanna verk verður að óumdeilanlegri eign. Að öllu jöfnu rýrna slíkar eignir í verði. Til eru afskriftarreglur um slíkt og geta þær eignir afskrifast niður í núll. En mýrlendið, þúfnakarginn, skurðirnir, kjarrið og klappirnar er um aldur og ævi á ráðstöfunarhendi hverstímalifandi erfingja einhvers frá ödinni sem leið, eða hinni þar áður. Þeir hafa því kverkatak á samfélaginu. Samfélag í höftum! 

Fyrning á eignarhaldi lands væri því eðlilegt og sjálfsagt. Fyrning ætti jafnvel teljast aftur í tímann. T.d. að býli fyrnist að fullu á 35 árum, eigin nýting lands hætti fyrir 30 árum, þannig væru 5 ár eftir af fyrnigartímanum. Að honum loknum ættu erfingjar mannvirki ef einhver væru og hóflegt leiguland umhverfis mannvirkin til að geta nýtt þau.

Það er fyrir löngu komin þörf, nei afsakið mig, nauðsyn, til breytinga í þessa veru. Gamla kerfið er arfleifð bændasamfélagsins sem var og gengur ekki upp lengur.

 


mbl.is Óðalsréttur endanlega afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eitt af einkennum eignarréttar er að hann fyrnist ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.9.2020 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband